?Ég myndi vilja sjá að hér risi nýtísku sjómannabær?


Sveinn Björnsson hefur upplifað sitt lítið af hverju á langri ævi, og er hann þó enn á besta aldri og hefur sjaldan ef þá nokkurn tíma verið hressari. Á dögunum settist hann niður með öðrum villimanni, Sigurði Ægissyni, og rifjaði í tilefni sjómannadagsins upp gamla tíma, þegar allt var leyfilegt, ólíkt því sem nú er, og velti fyrir sér hvað þyrfti til að gera Siglufjörð líkan því, sem hann eitt sinn var.   

?Það eru 50 ár síðan ég fór fyrst á sjó,? byrjar karlinn, og gerist dreyminn á svip. ?Þá fór ég til Grænlands á Hafliða SI 2 og við vorum þar í tvo mánuði matarlausir. Það gekk á ýmsu og þetta var mjög sögulegur túr.? Svo andvarpar hann. ?Þetta eru tímar sem koma aldrei aftur. Þessi síðutogarasjómennska var alveg sér kapítuli í þessu ferli okkar með íslensku sjómennina og sögu þeirra. Þetta skiptist allt í flokka; menn fóru svona stig af stigi, sumir tóku öll þrepin, fóru frá trillu á dekkbát og þaðan yfir á togara og til baka aftur yfir á dekkbátana ef þeim líkaði ekki togaralífið út af fjarvistum, þannig að það dreifðist svona og blandaðist.

Málverk eftir Gylfa Ægisson af Sveini ungum. Hafliði SI 2 í baksýn.


Trillurnar voru svo ekki gerðar út nema bara yfir sumarið. Á haustin voru gerðar út trillur á línu svona fram í nóvemberlok eða byrjun desember, svo var því hætt og ekki byrjað aftur fyrr en í janúar-febrúar. Þetta er á árunum eftir stríð, þegar ég er að alast upp, 1948, 1949, 1950 og jafnvel fyrr. Það var töluvert mikil línuútgerð hér á Siglufirði, menn sóttu í að koma hingað því héðan var svo stutt á góð línumið. Ólafsfirðingarnir og Dalvíkingarnir komu t.d. alltaf hingað á haustin á trillum og réru hér á línu og lögðu upp hjá Þráni og bjuggu í bröggunum þar. Þannig að þessi staður á sér víðtæka útgerðarsögu. Það má segja að það hefur ekkert farið fram hjá okkur: það var línan, handfærin og svo var það síldin og togararnir og menn voru að veiða hér í þorskanót, svo þessi fjörður á geysimikla sögu í sambandi við fiskveiðar og hvernig að þessu var staðið. Og þessu finnst mér að eigi að halda á lofti; menn mega ekki gleyma fortíð þessa bæjar.

Menn tala alltaf um einhvern aumingjaskap og að allt sé að drepast, en við áttum hér glæsta sögu ekkert síður en fornmennirnir þegar þeir byggðu Ísland. En svo er það mannskepnan sem drabbar þetta niður, möguleikarnir eru fyrir hendi, það er mannskepnan sem hagar sér eins og fáviti og eyðileggur lífsbjörgina. Staðirnir hér og fyrir vestan eru teknir nánast úr tengslum við umhverfi sitt, allt í einu er bara sagt ?STOPP!? við menn sem eru búnir að róa til fiskjar mann fram af manni, öld fram af öld. ?Þið fáið ekki að gera þetta. Stóru skipin lengst úti í ballarhafi mega veiða þetta.?

Og hvað? Þetta eru ekki landbúnaðarhéruð, þarna er ekki námuvinnsla, það er bara sjórinn. Af hverju ekki að leyfa fólki hér að gera eins og Norðmenn? Þeir tóku allt öðruvísi á þessu. Þeir hvetja fólk sem býr í Norður-Noregi og hjálpa því til þess að vera kyrrt með því að leyfa því að veiða; þeir búa til nokkuð sem heitir strandveiðifloti. Og þeir eru það klókir að skólastrákar frá 17 ára til tvítugs mega róa á handfæri án kvóta yfir sumarið. Það er gert til þess að reyna að endurnýja sjómannastéttina. Þetta dettur engum í hug að gera hér á landi, að leyfa 17-18 ára strákum að fá sér bát og spreyta sig og vita hvort þeir tolli ekki og verða sjómenn. Nei, þeir bíða eftir því að sjómannastéttin íslenska verði orðin það máttlaus að þeir geti farið að flytja inn austantjaldssjómenn sem þeir borga skít á priki fyrir. Eins og gerðist á Flæmska hattinum. Það var ekki af góðmennsku einni sem þeir voru teknir um borð, heldur út af því að þeir vinna fyrir nánast engin laun. Og þetta er það sem þeir eru að bíða eftir að gerist hér.?

Þetta er deyjandi stétt

?Þetta er ekki einleikið, það hljóta fleiri en ég og vinir mínir að sjá í hvað er að stefna með sjómannastéttina,? heldur Sveinn áfram. ?Stýrimannaskólinn er hálf tómur vegna þess að það koma engir til að fara í skólann. Enda er það ósköp eðlilegt. Eða til hvers ættu menn að fara þangað? Þeir hafa enga atvinnumöguleika og þegar þeir hætta á sjónum og koma í land, þá eru þeir flottir ef þeir fá vinnu á bensínstöð. Menn sem eru búnir að afla þjóðarbúinu tekna svo hundruðum milljóna skiptir eða meira. Svo þegar þeir koma í land þá eru engin not fyrir skipstjóra sem er fimmtugur. Hann kann ekkert annað en þetta. Hann getur borið út dagblöð og hann getur staðið á bensíndælunni. Og hvað? Menn sjá enga framtíð í þessu, af því að þetta er deyjandi stétt.

Það var svo vitlaust að þessari fiskverndarstefnu staðið, að það er alveg skelfilegt. Það var allt í lagi að setja kvóta á fiskinn og skammta hann og reyna að stjórna þessum fiskveiðum. En það átti aldrei að afhenda þetta neinum einstaklingum; þetta átti allt að vera í eigu ríkisins og þeir sem vildu veiða gátu einfaldlega fengið leigðan kvóta hjá ríkinu og ef þeir ekki kláruðu að veiða hann þá bara skiluðu þeir honum aftur. Þannig hefði verið hægt að halda ballansinn með kvótaleigu og annað niðri á eðlilegum mörkum þannig að menn hefðu einhvern afrakstur af streðinu.?

Og hann segir lítið dæmi. ?Kristján Rögnvaldsson átti trillubát sem heitir Bæring og er núna á Síldarminjasafninu. Þegar þetta er að breytast áttu allir að sækja um leyfi til fiskveiða og leggja fram haffæriskírteini fyrir 1. maí þetta sumar, 1985 eða 1986. Ég var að vinna í skipaafgreiðslunni og karlinn stóð við hliðina á mér á vigtinni og ég segi við hann: ?Ertu búinn að fá þér haffæriskírteini?? ?Nei, það er verið að laga vélina og hún er ekki komin í bátinn, svo ég er ekki klár,? segir hann. ?Ég skal redda fyrir þig haffæriskírteininu,? segi ég þá. ?Kemur ekki til greina,? segir hann, ?ég ætla ekkert að fara á bak við lögin.? ?En þá færðu ekki veiðileyfi á bátinn,? segi ég. ?Þeir skulu ekki voga sér það,? segir hann. ?Sko, hvað heldurðu að ég sé búinn að veiða marga fiska fyrir þessa andskota?? bætir hann við. ?Þeir taka ekkert mark á því þótt þú hefðir aleinn veitt alla fiska á Íslandi, þeir hlusta ekkert á þig,? segi ég. ?Ég skal nú sýna þér það, þeir þora nú ekkert að gera það við mig,? segir hann.

Svo kemur D-dagurinn, stóra stundin; karlinn fær ekki leyfi á bátinn af því hann var ekki með haffæriskírteini á réttum tíma. Stundum er sagt að veröldin geti hrunið yfir menn, en hann náði engum áttum. Hann trúði því virkilega ekki að þeir gætu farið svona með sig og hann fengi ekkert leyfi á bátinn, þótt hann hefði bara ætlað að fara hér út á fjörðinn að fá sér fisk í soðið. Svona höguðu þeir sér við þessa menn, sem höfðu eins og hann verið sjómaður frá 14 ára aldri og var búinn að vera skipstjóri og afla mikið og slíta sér út sem sjómaður meðan hann var á besta aldri; þetta voru launin sem hann fékk þegar hann var kominn í land. En þessi ágæti maður mátti ekki fara út á sjó og veiða fisk, vegna þess að einhverjir menn fyrir sunnan höfðu ákveðið að hann gæti kannski útrýmt stofninum ef hann gerði það. Þannig að það var alveg skelfilegt hvernig þetta var. Pólitíkin í veiðibransanum er orðin þannig að menn eru orðnir hræddir við að tala um þetta eða að koma nálægt þessu, af því að þetta er orðið svo flókið. Það þarf orðið tölvusérfræðinga til að greina í sundur taugaþræðina í þessu. Þess vegna er þetta bara látið danka.?

Það er allt hægt að gera

En Sveinn lætur þó ekki deigan síga, heldur lítur óhikað fram á veginn og veltir fyrir sér möguleikunum.

?Það væri gleðilegt ef maður gæti fengið að upplifa aftur að hér gæti orðið smábátaútgerð,? segir hann, með glampa í augum. ?Það gæti alveg orðið, því það er allt hægt að gera. Það er ljótt að þurfa að segja frá því, að þó að menn bölvi Evrópusambandinu – og kannski ástæða til á mörgum sviðum – þá halda menn þar upp á þennan strandveiðiflota sem ég nefndi og þau réttindi sem fiskimenn hafa átt við strendurnar. Og hvers vegna er þá ekki hægt að gera eitthvað svipað við Ísland? Við skulum bara taka Norðurland sem dæmi, svæðið frá Horni að Langanesi. Þetta er uppeldisstöð fyrir smáfiskinn. Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að gera tilraun, fyrst þeir fyrir sunnan eru orðnir svona flinkir að mæla fisk? Af hverju er ekki hægt að mæla hversu mikið er þar af fiski, á grunnslóð og djúpslóð, og ákveða síðan að leyfa handfæra- og línuveiðar og ekkert annað, og gera svo könnun eftir árið hvaða áhrif þetta hefur haft á stofninn? Athuga hvort það hafi verið til hins betra eða verra, eða kannski ekki haft nein áhrif?

Það er svona sem mér finnst vanta, menn bara festast í því að það er kominn kvóti; það skiptir engu máli við hvaða hafsvæði er verið að miða, það gilda bara ákveðnar reglur. Punktur og basta. Ég hefði viljað hafa það þannig að hérna væri bara tékkað á því hvort handfæra- og línuveiðar hafa einhver áhrif á stofninn og ef svo er, þá vissum við að það yrði að fara aðra leið, þá yrði hægur vandi að takmarka fjölda báta á svæði. Það er t.d. einfaldlega hægt að hólfa þetta niður, taka Húnaflóa sér, o.s.frv. En stjórnvöld hafa engan áhuga á þessu, vilja bara hafa óbreytt ástand. Því færri sem koma að kökunni, þeim mun betra er það. Þetta er peningur og allsstaðar þar sem menn hafa verið að sælast eftir peningum, þar er engin miskunn.

Sveinn Björnsson um borð í Sigurvin 26. júní 2003, í Héðinsfirði.

Þetta þarf ekki að vera svona, en það virðist sem enginn hafi kjark til að skera þetta dæmi upp. Mig dreymir um að fá að sjá hér eins og er fyrir vestan, að hér kæmi upp smábátafloti og með honum ungir menn sem eignuðust hér heimili og gætu stundað sína útgerð í rólegheitunum án þess að hafa það á samviskunni að þeir væru að útrýma stofninum. Við sjáum t.d. samfélagið í Grímsey, þar hafa menn verið að auka bátaflotann og þar hefur fólki fjölgað. Ef þetta væri nú rétt og satt, að með auknum flota og aukinni sókn myndi magnið minnka. En þetta er einmitt öfugt þar. Grímseyingar hafa ekki mjög stór mið að sækja á, nú geta þeir að vísu sótt fram að Kolbeinsey á þessum hraðfiskibátum sínum þegar veður leyfir, þar er ónýtt fiskislóð, ein sú besta hér fyrir Norðurlandi sem enginn nýtir. Svörin liggja fyrir framan okkur, þetta er ekki rétt. Ég er alveg viss um að þótt hér yrði gerðar út 20-30 trillur á Fljótamiðin þá myndi ekki sjást högg á vatni. Skaparinn sér um að halda mönnum í landi reglulega; þessir bátar sækja ekkert í vondum veðrum. Þannig hefur það alltaf verið. Hann er bestur í því, almáttugur Guð, að passa það að maður ofmetnist ekki, hann kemur manni alltaf niður á jörðina aftur. Það er bara regla.?

Það eru allir nauðsynlegir

En Sveinn er ekki ánægður með stefnuna í menntamálum þjóðarinnar. Nú á að steypa alla í sama mót, senda þá í æðri menntastofnanir og kenna þeim á tölvur og annað slíkt. En hver á þá að gera við bílinn, eða sækja ruslið í tunnuna, eða landa úr skipunum?

?Menntun er góð, en það gengur ekki að ætla bara að búa til eina stétt manna,? segir hann. ?Við þurfum að lifa í blönduðu þjóðfélagi, þar sem er að finna hinar ýmsu starfsstéttir. Það eru allir nauðsynlegir, en þegar það er orðið þannig að ungir menn og konur hafa aldrei fengið mold undir neglurnar á sér frá því þau fæddust, nema kannski þegar vettlingarnir voru teknir af þeim á dagheimilinu en alls ekki eftir það, þá er illa komið fyrir þjóðinni.

Samfélagið hefur breyst svo mikið frá því sem áður var hér og það til hins verra. Nú mega strákar ekki kveikja bál úti í fjöru, lögreglan er komin á þá undir eins. Eins og við kveiktum nú oft bál hér áður fyrr niðri í fjöru, í dekkjum, spýtum, þara og öllum andskotanum sem við fundum. Enginn sagði neitt og bærinn er óbrunninn ennþá.

Við getum ekki náð okkur í unga sjómenn ef unglingar fá ekki tækifæri til þess að komast á sjó, eins og t.d. á rækjuskipin, þó ekki væri nema upp á hálfan hlut. Ef Þormóður rammi myndi bjóða krökkum í efri bekkjum grunnskóla á sjó á sumrin, yrði þetta samt mjög vel launuð vinna fyrir þessi grey, miðað við hvað er borgað annars staðar. Það gæti orðið til þess að einhver þeirra festust og vildu leggja það fyrir sig að verða sjómenn. Það er grátlegt þegar við erum að missa allt unga fólkið okkar í burtu, rekum það til mennta og svo kemur það ekki aftur, því það er ekkert sem bíður þess, það hefur ekkert hingað að sækja. Mann langar til að sjá þennan stað vaxa upp aftur. Við lifum alltaf á sjónum, við getum aldrei lifað á neinu nema honum. Hann er alltaf númer 1, 2 og 3. Ég myndi vilja sjá að hér risi nýtísku sjómannabær, þar sem væri blönduð veiði. Ég vildi sjá að stjórnvöld myndu vitkast og leyfðu öllum þessum litlu útgerðarstöðum hér, sem eiga allt sitt undir sjónum, að bjarga sér sjálfir. Þetta er hægt að laga, ég trúi ekki öðru; það er hægt að breyta öllu. Það er ekkert kerfi þannig að ekki megi breyta því.

Það er ekki allt slæmt sem er gamalt. Eða hvað var það sem byggði þetta land upp? Það voru ekki tölvurnar, svo mikið er víst. Þróunin er bara þessi. En við eigum að halda í það sem gott er og skynja að þetta var ein af meginstoðum þess sem er í dag. Nú á tímum spyr enginn að því hvert útflutningsverðmætið er á haus á þessum stað; menn tala með fyrirlitningu um Siglufjörð, en hið sanna er að útflutningsverðmæti á hvern íbúa bæjarins er um 3 milljónir, og þar eru börnin meðtalin, en í Reykjavík um 50.000. Mér finnst að það eigi að berja á þessu, að menn séu að skapa verðmæti með því að vera hér úti á ströndinni, í stað þess að hengja haus og vera hálf flóttaleg yfir því að voga okkur að eiga heima hér.?

Guðný Guðmundsdóttir og Sveinn Björnsson.

Myndin var tekin þegar Sveinn var heiðraður á sjómannadaginn 2003. 

[Fyrst birt í Hellunni, 2. maí 2002, bls. 3, 7 og 9. Ljósmyndirnar sem hér fylgja voru ekki í upphaflegri grein, eins og gefur að skilja.]

Myndir og texti: Sigurður Ægissonsae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is