?Alltaf sárt að þurfa að standa í svona löguðu?


Eins og greint var frá hér í október og nóvember á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin að skera mjög niður í heilbrigðiskerfinu 2011, sérstaklega á landsbyggðinni, og var því að sjálfsögðu mótmælt kröftuglega, ekki síst hér fyrir norðan. Á þær raddir var hlustað að einhverju leyti, en þó ekki öllu.

Siglfirðingur.is leitaði til Konráðs Baldvinssonar, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar í Fjallabyggð, og spurði hver niðurstaðan hefði orðið með landsvæðið hér.

?Jú, þetta er aðeins skárra en upp hafði verið lagt með á haustdögum, en samt gremjulegt. Árið 2007 er tekin ákvörðun um það í ráðuneyti að fækka sjúkra- og bráðarýmum um 8 eða úr 12 í 4 sem þýddi um 72 m. kr. lækkun á rekstrarframlagi til stofnunar sem bættist við það sem gera varð vegna efnahagshrunsins. Þessi lækkun á framlagi átti að gerast á þrem árum,? sagði Konráð.

?Árið 2009 var stofnuninni gert að lækka rekstrarkostnað um 56 m. kr. og um 40 m. kr. 2010. Og á þessu ári, 2011, þarf að lækka reksturskostnað um 56 m. kr. miðað við rekstrarniðurstöðu síðasta árs og rekstrarframlag þessa árs, þ.e. 2011. Þetta er því þriðja árið í röð sem HSF þarf að skera niður í rekstri. Rekstrartap á síðasta ári er áætlað um 12-13 m. kr.

Það var fækkað um 10 rúm núna 1. janúar eða úr 33 í 23. Og fækkað um 7 hjúkrunarrými og 3 bráða- og sjúkrarými. Þegar mest var voru 40 rúm 28 hjúkrunarrými og 12 bráða- og sjúkrarými.

Það segir sig sjálft að þegar rúmum er fækkað um 10 í einum áfanga og niðurskurður á þrem árum um 150 m.kr. hlýtur eitthvað að láta undan, bæði hvað starfsemi, þjónustu og starfsfólk varðar.

Nú í janúar var 12 starfsmönnum sagt upp störfum í um 6,8 stöðugildum og lækkað starfshlutfall hjá 20 starfsmönnum sem nemur 2,7 stöðugildum eða samtals fækkun stöðugilda 9,5. Uppsagnarfrestur er frá 3 mánuðum til 6 mánaða.

Það er alltaf sárt og leiðinlegt að þurfa að standa í svona löguðu, þetta eru þung spor, en ekki um annað að ræða víst, eins og sakir standa, því miður,? sagði Konráð að lokum.

Gert er ráð fyrir að breytingar á rekstri komi til framkvæmda á næstu mánuðum en verði ekki komnar að fullu til framkvæmda fyrr en á haustmánuðum.

Árið 2011 er þriðja árið í röð sem HSF þarf að skera niður í rekstri.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is